Bréf í Kviku banka hafa verið að seljast á bilinu 6 til 6,3 krónur á hlut undanfarið og má því áætla að 2,05% hlutur sem fjárfestirinn og fyrrverandi byggingarverktakinn í Kópavogi, Sigurður Sigurgeirsson keypti nýlega hafi fengist á nærri 200 milljónir króna.

Með kaupunum er Sigurður orðinn ellefti stærsti eigandinn í bankanum í gegnum eignarhaldsfélagið Breiðahvarf að því er Fréttablaðið greinir frá. Hann er jafnframt í hópi tuttugu stærstu hluthafa tryggingafélagsins VÍS, sem eins og Viðskiptablaðið greindi frá í byrjun árs keypti umtalsverðan hlut í bankanum.

Félag Sigurðar keypti hlutinn af fjárfestingarfélaginu Vörðu Capital sem hefur nú selt alla sína hluti í Kviku, en áður var það fimmti stærsti hluthafinn í bankanum með 7,7% eignarhlut.

Félagið er að stærstum hluta í eigu þeirra Jónasar Hagans Guðmundssonar og Gríms Garðarssonar, en aðrir kaupendur á bréfum Vörðu voru meðal annars eigendur Re/MAX á Íslandi, þeir Gunnar Sverrir Harðarson og Þórarinn Arnar Sævarsson.

Einnig keyptu eigendur heildverslunarinnar Johann Rönning, hjónin Bogi Þór Siguroddsson og Linda Björk Ólafsdóttir sem og  Einar Sveinsson fjárfestir.