Gengi hlutabréfa Marel hækkaði um 2,38% í Kauphöllinni í dag í 252 milljóna króna veltu með bréfin. Gengi hlutabréfa félagsins hefur verið að hækka á ný í mánuðinum eftir forstjóraskiptin um mánaðamótin. Gengi bréfa Marel stóð í 133,5 krónum á hlut 1. nóvember síðastliðinn en tóku dýfu sama dag og greint var frá því að Theo Hoen færi frá sem forstjóri fyrirtækisins og að Árni Oddur Þórðarson hafi tekið við af honum. Gengislækkunin hélt viðstöðulítið áfram til 11. nóvember en þá hafði það lækkað að meðaltali um 1% á dag. Þegar botninum náði stóð gengið í 120,5 krónum á hlut. Gengi hlutabréfa Marel stendur nú í 129 krónum á hlut og hefur því hækkað um 7% frá því það var lægst í mánuðinum.

Á sama tíma hækkaði gengi bréfa TM um 0,96% Icelandair Group um 0,63%, VÍS um 0,54% og Haga um 0,13%.

Á móti lækkaði gengi bréfa Eimskips um 0,42%.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,91% og endaði hún í tæpum 1.194 stigum. Heildarvelta í Kauphöllinni með hlutabréf nam 995 milljónum króna í dag.