*

þriðjudagur, 22. júní 2021
Innlent 14. september 2020 16:42

Bréf Marel lækka um 2,75%

Hlutabréf Arion hafa hækkað um ríflega helming síðan í mars og er markaðsvirði félagsins 133 milljarðar króna.

Ritstjórn

Úrvalsvísitalan (OMXI10) lækkaði um 1,53% í viðskiptum dagsins og stendur í 2.150 stigum eftir að hafa brotið 2.200 stiga múrinn í fyrsta sinn á miðvikudag í síðustu viku. Alls lækkuðu hlutabréf þrettán félaga í dag og var heildarvelta dagsins 1,6 milljarðar króna.

Mest lækkuðu hlutabréf Marel eða um 2,75% í mestri veltu sem nam 522 milljónum króna. Bréf félagsins standa í 706 krónum hvert. Næst mest lækkuðu hlutabréf Eikar um 2,47% og standa þau nú í 7,12 krónum en bréf félagsins hækkuðu um ríflega 11% í síðustu viku.

Næst mest velta var með hlutabréf Arion banka um 459 milljónir króna. Bréfin hækkuðu um 0,85% og standa nú í 77 krónum. Á þessu ári fóru hlutabréf Arion lægst í 51 krónu hvert 23. mars og hafa hækkað um ríflega helming síðan þá. Á síðustu þremur mánuðum hafa bréf félagsins hækkað um ríflega 28%.

Arion er næst verðmætasta félagið á íslensku kauphöllinni, á eftir Marel, og er markaðsvirði þess um 133 milljarðar króna. Markaðsvirði Marel er um 544 milljarðar króna.

Hlutabréf Icelandair hækkuðu um 2,46% í sex milljóna króna viðskiptum í dag og standa þau nú í 1,25 krónum hvert. Hlutafjárútboð félagsins hefst á miðvikudag í þessari viku og verður útboðsgengi bréfanna ein króna. IFS greining metur Icelandair á tvöföldu útboðsgengi.