Gengi hlutabréfa Marel féll um 2,59% í rúmlega 80 milljóna króna veltu í Kauphöllinni í dag. Þetta var mesta gengislækkunin á markaðnum. Gengi hlutabréfa Marel stendur nú í 131,5 krónum á hlut og hefur það ekki verið lægra á árinu.

Á sama tíma lækkaði gengi bréfa fasteignafélagsins Regins um 0,96%.

Hins vegar hækkaði gengi bréfa Haga-samstæðunnar um 0,51% í tæplega 139 milljóna króna veltu. Gengi hlutabréfa félagsins stóð í 19,6 krónum á hlut í lok dags og hefur aldrei verið hærra.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,88% í tæplega 240 milljóna króna veltu á markaðnum og endaði hún í 991,34 stigum.