Gengi hlutabréfa Marels lækkaði um 2,72% í viðskiptum dagsins í Kauphöllinni. Viðskipti með bréfin voru mikil, en orðrómur er um að Columbia Acorn International hafi selt hluta af eign sinni í dag til innlendra lífeyrissjóða. Velta með bréfin nam rúmum 2,3 milljörðum króna.

Gengi hlutabréfa tryggingafélaganna lækkaði einnig umtalsvert í viðskiptum dagsins. Þannig lækkuðu bréf TM um 3,31%, VÍS um 3,19% og Sjóvá um 2,33%. Einnig lækkuðu hlutabréf Haga um 1,17%, Icelandair um 1,08%, Vodafone um 0,78% og N1 um 0,26%.

Hlutabréf Össurar halda hins vegar áfram að hækka, en þó var lítil velta með bréf félagsins. Hækkaði gengi bréfanna um 1,41%. Þá hækkuðu hlutabréf Eimskips um 1,01%.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,64% og stendur nú í 1.196 stigum. Heildarvelta nam 2.835 milljónum króna.