Úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkaði um ein 1,52% í dag og endaði í 1.150,28 stigum. Velta var einnig óvenjumikil, en þar munaði mestu um ríflega fjögurra milljarða króna sölu Eyris Invest á hlutabréfum í Marel. Gengi bréfa Marels lækkaði um 3,40% í dag, gengi Eimskips um 1,14% og gengi Icelandair um 1,09%. Bréf TM hækkuðu um 0,59%, Fjarskipta um 0,30% og Össurar um 0,28%.

Eins og áður segir var veltan óvenjumikil á hlutabréfamarkaði í dag eða rúmir 4,9 milljarðar króna. Þar af var velta með bréf Marels tæpir 4,2 milljarðar króna.

Skuldabréfavísitala GAMMA hækkaði um 0,06% í viðskiptum dagsins í dag. Verðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 0,23% en sá óverðtryggði hækkaði um 0,79%. Velta á skuldabréfamarkaði var óvenjumikil og nam 24,8 milljörðum króna. Þar af nam velta með óverðtryggð bréf 20,8 milljörðum króna.