Gengi hlutabréfa íþróttavöruframleiðandans Nike hafa lækkað um 3,42% það sem af er viðskiptadegi í Bandaríkjunum, en innan dags nam lækkunin mest 7%, að því er segir í frétt BBC. Ástæðan er sögð vera sú að fyrirtækið gaf út afkomuspá þar sem gert er ráð fyrir því að velta myndi aðeins aukast um innan við 10% á reikningsárinu sem lýkur í maí 2017. Greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir 10%-15% vexti í veltu.

Á tímabilinu desember til febrúar skilaði Nike 950 milljóna dala hagnaði og jókst velta um 8% á milli ára. Nam hún átta milljörðum dala á tímabilinu. Hátt gengi Bandaríkjadals og sveiflur í öðrum gjaldmiðlum hafa leikið fyrirtækið grátt og þá hafa greinendur áhyggjur af því að einkaneysla muni dragast saman vegna hægagangs í heimshagkerfinu.