Kaup norska lággjaldafélagsins Norwegian á 222 nýjum þotum fyrir um 2.700 milljarða íslenskra króna hafa vakið mikla athygli og sumir greinendur héldu í fyrstu að upphæðin sem nefnd var væri ásláttarvilla blaðamanna enda eru þetta einhver mestu flugvélakaup sem um getur. Trond Giske, viðskiptaráðherra Noregs, segir félagið vera “ævintýri”. Gengi bréfa Norwegian í kauphöllinni í Ósló tók hressilega við sér í kjölfar fréttanna en við lokun nam hækkunin um 13%. Á sama tíma lækkaði gengi bréfa keppinautarins og flugrisans SAS lítillega.

Sérfræðingur Terra Markets sagði við norska fjölmiðla að hann teldi vera miklar líkur á að Norwegian hafi áttað sig á að SAS glími við verulega rekstrarerfiðleika og sé mögulega á leiðinni í þrot; Norwegian stefni að því að taka yfir mikilvægasta markaðssvæði SAS, Skandinavíu. Eins og greint hefur verið frá mun Norwegian hefja áætlunarflug milli Keflavíkur og Óslóar í byrjun júní í sumar.