Ekkert lát er á hækkunum bréfa í norska hugbúnaðarfyrirtækinu Opera. Í gær bárust fréttir frá félaginu um að samningar hefðu náðst við þýska farsímafyrirtækið Debitel um notkun á hugbúnaði Opera í alla farsíma skráða hjá félaginu. Markaðsaðilar tóku afar vel í fréttir af samningnum og gengi bréfa í Opera hækkaði um 11,5% í Kauphöllinni í Osló í viðskiptum gærdagsins. Í dag hækkuðu bréfin um 1,49%.

Greint er frá þessu í Vegvísi Landsbankans. Þar kemur einnig fram að síðastliðna tólf mánuði hafa bréf í Opera hækkað um 202% en það þýðir að þau hafa þrefaldast í verði á tímabilinu. Frá áramótum hefur gengið hækkað um 20,9%, þar af um 13,3% í þessari viku. Gengið stendur nú í 27 NOK á hlut og markaðsviðri félagsins er tæpir 32 milljarðar íslenskra króna.

Debitel er eitt stærsta fyrirtæki á sviði fjarskipta í Evrópu og viðskiptavinir þess eru um 10,6 milljónir talsins.