*

fimmtudagur, 9. desember 2021
Erlent 9. júní 2020 18:03

Bréf rafbílaframleiðanda tvöfaldast

Hlutabréfaverð rafbílaframleiðandans, Nikola, tvöfölduðust í verði í gær, félagið gerir ekki ráð fyrir neinum tekjum árið 2020.

Ritstjórn
Pallbílinn Nikola Badger er væntanlegur árið 2021 en bílinn á að búa yfir 906 hestöflum með rúmlega 960 kílómetra drægni.

Hlutabréfaverð bandaríska rafbílaframleiðandans, Nikola, hækkuðu um 103% á mánudag og síðan um 28% í morgun. Ekki er búist við neinum tekjum frá félaginu fyrir árið 2020 en væntar tekjur fyrir árið 2021 er 1 milljarður dollara. Frá þessu er sagt á vef Bloomberg.

Félagið var skráð á Nasdaq kauphöll í síðustu viku eftir sundrun frá öðru félagi. Markaðsvirði félagsins er nú um 26 milljarðar dollara, eða rúmlega 3,45 billjónir króna. Félagið hefur tapað um 188 milljónum dollara, tæplega 25 milljarðar króna, síðan það hóf rekstur fyrir fimm árum.

Til samanburðar við Nikola er því spáð að tekjur bílaframleiðandans Ford verði 115 milljarðar dollara árið 2020, en markaðsvirði Ford er um 29 milljarðar dollara. Markaðsvirði Nikola tók fram úr Ford um stutta stund í dag.

Trevor Milton, stjórnarformaður félagsins, var spurður út í mögulegar ástæður fyrir þessari miklu hækkun á hlutabréfaverði félagsins. Hann benti meðal annars á að félagið mun byrja taka á móti bókunum fyrir nýjum rafmagnspallbíl sem ber heitið Badger. Ekki er þó víst hvort bílinn verði framleiddur.

Félagið stefnir á að hefja framleiðslu á vörubílum árið 2021 og ná hámarksframleiðslu 2027 þegar það mun framleiða um 30.000 bíla á ári.

Stikkorð: Ford Nikola Trevor Milton