Gengi hlutabréfa fasteignafélagsins Regins féll um 2,24% í Kauphöllinni í dag. Þetta var mesta gengislækkun hlutabréfa á aðallista markaðarins. Þetta var reyndar ekki eina félagið sem lækkaði um meira en 2% í verði í dag. Gengi hlutabréfa Marel féll á sama tíma um 2,08%.

Ekki er mikil velta á bak við viðskiptin. Aðeins sjö viðskipti með hlutabréf Marel upp á 57 milljónir króna og fjögur viðskipti með bréf Regins upp á rúmar 7,2 milljónir króna.

Þá lækkaði gengi bréfa Haga um 1,49%, Vodafone um 0,89%, Össurar um 0,1% og Icelandair Group um 0,09%.

Gengi hlutabréfa Eimskips hækkaði hins vegar um 0,19%. Þetta var eina hækkun hlutabréfa í Kauphöllinni.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,04% og endaði hún í 1.157 stigum. Heildarvelta með hlutabréf nam um 540 milljónum króna.