Gengi hlutabréfa fasteignafélagsins Regins hefur hækkað um 1,83% í Kauphöllinni í dag. Ekki eru mikil viðskipti á bak við gengishækkunina eða 40 milljónir króna. Reginn birti uppgjör félagsins fyrir fyrstu sex mánuði ársins eftir lokun markaðar í gær. Greiningardeild Arion banka sagði í morgun afkomuna á öðrum ársfjórðungi hafa verið talsvert yfir væntingum.

Hagnaður þess nam 534 milljónum króna á tímabilinu. Þar af nam hann 292 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi. Tekjur námu hins vegar 1.025 milljónum króna sem var 23% meira en fyrir ári. Gert var ráð fyrir 562 milljóna króna tekjum.

Gengi hlutabréfa Regins stendur nú í 13,39 krónum á hlut og stendur nálægt því sem það fór hæst. Hæst fór gengið í rúmar 13,7 krónur á hlut í mars á þessu ári.

Helstu og þekktustu eignir Regins eru Smáralind í Kópavogi og Egilshöll í Grafarvogi.