Eftir að hafa lækkað samtals tólf viðskiptadaga í röð um samtals 19,5% tóku hlutabréf dönsku ölgerðarinnar Royal Unibrew í dönsku kauphöllinni kipp í dag og hækkuðu um 10%.

Í frétt netútgáfu danska viðskiptablaðsins Börsens er það meðal annars þakkað nýju verðmati frá Gudme Raaschou sem leggur nú til að fjárfestar kaupi í  Royal Unibrew.

Í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að Royal Unibrew, sem er annar stærsti drykkjarvöruframleiðandi Skandinavíu og FL Group á 24,4% hlut í, skilaði 3,7 milljarða danskra króna hagnaði árið 2006 fyrir skatta og náði þar með að standa undir væntingum, en þær gerðu ráð fyrir hagnaði upp á 3,7- 4 milljarða króna.

Viðskiptablaðið greindi frá kaupum Royal Unibrew í pólskri bjórverskmiðju í febrúar síðastliðnum, en sú fjárfesting var að verðmæti 240 milljónir danskra króna eða tæplega 2,9 milljarðar íslenskra króna. Markaðsverðmæti Royal Unibrew er 49,8 milljarðar íslenskra króna, en félagið er skráð í dönsku kauphöllina.


Royal Unibrew er annar stærsti drykkjarvöruframleiðandi á Skandinavíu. Samstæðan samanstendur af fjórum dönskum, tveimur litháenskum, tveimur pólskum og tveimur lettneskun drykkjarvöruframleiðendum. Meðal vörumerkja eru Albani, Faxe, Ceres, Maribo og Thor í Danmörku og Tauras og Kalnapilis í Litháen. Starfsmenn Royal Unibrew eru um um 2.300 talsins víða um heim, og félagið flytur út framleiðslu sína til um 65 landa.