Samherji segir í bréfi, sem sent var til starsfmanna í dag, að dótturfyrirtækið Seagold Ltd. hafi látið gera óháða greiningu og úttekt á rekstri fyrirtækisins og viðskiptum þess við Samherja og Ice Fresh Seafood. Greininguna vann endurskoðunarskrifstofan Baker Tilly LLP og segir í bréfinu að afdráttarlaus niðurstaða þessarar úttektar hafi verið sú að ekkert væri við þessi viðskipti að athuga. Viðskipti Seagold Ltd. við tengda aðila væru eins og um óskylda aðila væri að ræða. Því væri engin þörf á að breyta þar nokkru, hvorki verðlagningu né aðferðum við verðlagningu.

Tilefni greiningarvinnunar er rannsókn Seðlabankans á meintri undirverðlagningu Samherja þegar sjávarafurðir eru seldar til tengdra aðila eins og Seagold. Í bréfinu segir að á því tímabili sem rannsókn Seðlabanka Íslands nær yfir hafi Samherji og Ice Fresh Seafood flutt út afurðir fyrir alls 113 milljarða króna. Af eigin framleiðslu voru seldar afurðir til tengdra aðila fyrir 15,4 milljarða króna en þar af námu viðskipti við Seagold 14,3 milljörðum króna eða um 93%.

Segir bankann hafa ráðist á Samherja

Niðurstaða skýrslu Baker Tilly, að því er segir í bréfinu, var að viðskipti Seagold Ltd. með sjávarafurðir við tengda aðila væru eins og að um ótengda aðila væri að ræða. Því væri engin þörf á að breyta nokkru; hvorki hvað varðar verðlagningu né verðlagningaraðferðir.

Við lok bréfsins, sem undirritað er af þeim Þorsteini Má Baldvinssyni og Kristjáni Vilhelmssyni, segir svo: „Þessi niðurstaða bresku endurskoðunarstofunnar staðfestir enn og aftur að yfirmenn Seðlabanka Íslands hafa ítrekað farið með rangfærslur í tilhæfulausri árás sinni á Samherja. Dómstólar hafa staðfest að verðútreikningar á karfa, sem lágu að baki húsrannsóknarheimildinni, voru rangir. Yfirmenn bankans hafa síðan ítrekað látið lögmann sinn fullyrða fyrir rétti að bankinn hafi ný gögn í fórum sínum sem staðfesti undirverðlagningu Samherja til tengdra félaga. Skýrsla IFS-Greiningar, sem við höfum birt helstu niðurstöður úr, og nú skýrsla Bakers Tilly staðfesta það sem við höfum alltaf sagt: Samherji hefur EKKI selt fisk á undirverði.“