Hlutabréf japanska sjónvarpsframleiðandans Sharp féllu snögglega eftir að félagið sendi frá sér afkomuviðvörun. Hlutabréf fyrirtækisins hafa nú fallið um 30% samkvæmt frétt BBC. Fyrirtækið tilkynnti að tap félagsins á þessu ári yrðu allt að átta sinnum meira en áður var gert ráð fyrir. Nú er gert ráð fyrir að fyrirtækið tapi um 250 milljörðum yena, sem samsvarar um 387 milljörðum íslenskra króna.

Sharp tilkynnti á fimmtudaginn að fyrirtækið myndi grípa til sparnaðaraðgerða og segja upp um 5.000 manns til að draga úr kostnaði. Einnig á að auka áherslu á dýrari vörur fyrirtækisins, á borð við LED og þrívíddarsjónvörp vegna minnkandi eftirspurnar eftir ódýrari vörum fyrirtækisins.