Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi lækkaði um 0,14% í viðskiptum dagsins og fór niður í 2.014,91 stig, en heildarviðskiptin í dag námu 2,3 milljörðum króna.

Mesta hækkun var á bréfum Eik, eða 1,01% og fæst hvert bréf nú á 8 krónur en viðskipti bréfanna námu 105,2 milljónir króna. Næst mesta hækkunin var á gengi bréfa Símans eða um 0,66% og fór virði bréfanna því upp í 4,6 krónur á hvern hlut.

Þriðja mesta hækkunin var svo á gengi bréfa Arion Banka, eða 0,64% og er því hvert bréf komið upp í 78,5 krónur.

Bréf Skeljungs hækkuðu einungis lítillega eða um 0,13% þrátt fyrir, eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag, að Ingibjörg S. Pálmadóttir keypti fyrir 160 milljónir. Heildar viðskipti bréfanna nam 325 milljónir í dag.

Mesta lækkun í viðskiptum dagsins var á bréfum Heima eða um 1,68%. Því eru bréfin farin niður í 1,17 krónur í einungis 3 milljón króna viðskiptum. Næst mesta lækkun var á tryggingarfélaginu Vís eða um 0,69% og er því hvert bréf komið í 11,55 krónur á hvern hluta. Önnur félög sem lækkuðu í viðskiptum dagsins voru Eimskip, Hagar, Marel, Festi og Icelandair.

Krónan veikist gegn öllum sínum helstu viðskiptamyntum

Gengi krónunnar veiktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum en mest lækkaði krónan gagnvart Svissneska frankanum eða um 0,74% og fæst nú á rúmlega 130 krónur. Japanska jenið styrktist um næst mest eða um 0,7% og fæst nú á um það bil 1,2 íslenskar krónur.

Aðrar myntir sem hækkuðu gagnvart krónunni var meðal annars breska pundið sem hækkaði um 0,63%, Bandaríkjadalurinn sem hækkaði um 0,48% og evran sem hækkaði um 0,43% og fæst nú á 140 íslenskar krónur.