Í kjölfar tilkynningar Sýnar hækkuðu hlutabréf félagsins um rúmlega fimmtán prósent. Þegar þetta er skrifað hafa bréf félagsins hækkað um sjö prósent í 152 milljóna króna veltu.

Fyrr í dag tilkynnti fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækið Sýn að félagið gæti hagnast yfir sex milljarða króna á sölu hluta fjarskiptainnviða sinna. Samkomulag hefur ekki náðst við fjárfesta en sagt er frá því að viðræður séu langt komnar. Markaðsvirði Sýnar við lokun markaða í gær var tíu milljarðar króna.

Hlutabréf Sýnar standa nú í 37 krónum en hæst hafa þau farið í 38,7 krónur á þessu ári. Í lok ágúst stóðu bréf félagsins í rúmlega 23 krónum og hafa þau hækkað um 61% síðan þá. Á undanförnum mánuði hafa bréf félagsins hækkað um átján prósent, ef ekki er tekið tillit til hækkunar dagsins í dag.