*

sunnudagur, 28. febrúar 2021
Innlent 5. nóvember 2020 11:48

Bréf Sýnar lækka um þrettán prósent

Sýn birti árshlutauppgjör í gær og hafa bréf Sýnar lækkað talsvert í dag. Talið að markaðurinn sé efins um tilvonandi sölu Sýnar.

Alexander Giess
Heiðar Guðjónsson er forstjóri Sýnar.
Eva Björk Ægisdóttir

Það sem af er degi hafa hlutabréf fjarskiptafyrirtækisins Sýnar lækkað um tæplega þrettán prósent í 54 milljóna króna viðskiptum. Bréf félagsins standa nú í 31,15 krónum hvert og er markaðsvirði félagsins rúmlega níu milljarðar króna.

Sýn birti árshlutauppgjör í gær og að sögn viðmælenda Viðskiptablaðsins kemur lækkunin í dag á óvart. Viðmælandinn segir að ljóst sé að markaðurinn sé efnis um samning Sýnar og vitnar þar til mögulegrar sölu á hluta fjarskiptainnviða Sýnar. Ef samningurinn væri jafn arðbær og gert er ráð fyrir væri þróunin ekki á þennan veg.

Jákvæður viðsnúningur var á rekstri Sýnar á þriðja ársfjórðungi. Félagið hagnaðist um átta milljónir króna á þriðja ársfjórðungi 2020 en tapaði 71 milljón á sama tímabili fyrra árs. Hins vegar hefur Sýn tapað 402 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins.

Í október var sagt frá því að Sýn gæti hagnast um yfir sex milljarða króna á sölu hluta fjarskiptainnviða sinna ef samkomulag næst við fjárfesta, um 65% af núverandi markaðsvirði Sýnar. Enn fremur kom fram að viðræður væru langt komnar. Í kjölfarið á tilkynningunni hækkuðu hlutabréf Sýnar um rúmlega fimmtán prósent.

Þrátt fyrir lækkun dagsins í dag hafa hlutabréf Sýnar hækkað um tæplega þriðjung á síðustu þremur mánuðum og um níu prósent á síðasta mánuði.

Stikkorð: árshlutauppgjör Sýn