Gengi hlutabréfa bílaframleiðandans Tesla Motors rauk upp í hæstu hæðir á fjármálamörkuðum í Bandaríkjunum í dag. Nokkrir þættir skýra gengishækkunina, þar á meðal ætla stjórnvöld í Kína að verja hærri fjárhæðum í niðurgreiðslu á bílum undir merkjum Tesla. Gengi hlutabréfa fyrirtækisins stendur nú í tæpum 197 dölum á hlut.

Gengi hlutabréfa Tesla Motors tók dýfu í nóvember í fyrra í kjölfar frétta þess efnis að eldur hafi komið upp í nokkrum Tesla Model S-bílum. Enginn slasaðist í eldinum. Litlu virtist skipta þótt Elon Musk, forstjóri Tesla, hafi sagt sambærileg óhöpp koma oftar upp í bílum sem knúnir eru af eldsneyti.

Bandaríska fréttastofan CNN segir kínversk stjórnvöld greiða þeim sem kaupi nýja rafmagnsbíla á bilinu 35 þúsund til 60 þúsund júana. Það gera um 660 þúsund og upp í 1,2 milljónir króna sem hver kaupandi fær niðurgreitt fyrir kaup á rafmagnsbíl.