Hlutabréfaverð Tesla lækkaði um 4,32% í gær í kjölfar þess að bandarísk umferðaröryggisyfirvöld (National Highway Traffic Safety Administration) opnuðu formlega rannsókn á sjálfstýringarkerfi Tesla eftir röð slysa þar sem að minnsta kosti sautján einstaklingar hafa slasast og einn látið lífið.

Yfirvöld höfðu fyrr á árinu sagt mál Tesla í skoðun eftir árekstur sem varð í Texas en formleg rannsókn hafði ekki hafist fyrr en nú. Þetta kemur fram í frétt CNBC .

Í gögnum yfirvalda kemur fram að frá janúarmánuði ársins 2018 hafi það komið ellefu sinnum upp að Tesla-bílar á sjálfstýringu hafi komið að vettvangi slysa og ekið þar á eina eða fleiri bifreiðar, þar á meðal kyrrstæða lögreglubifreið. Í flestum tilfellum hafa slysin orðið í myrkri.

Sjálfstýring Tesla gerir ökuþórum kleift að halda jöfnum hraða og réttri staðsetningu á vegi en dugir ekki til þess að öruggt sé að aka bifreiðinni án ökumanns við stýrið. Ökumenn bera þannig ábyrgð á að bregðast við hindrunum í veginum og hreyfingum nálægra bifreiða.