Hlutabréf samskiptamiðilsins Twitter verða tekin til viðskipta á markaði í Bandaríkjunum á fimmtudag í næstu viku og er þess beðið með nokkurri eftirvæntingu. Talið er að um 240 milljónir manna noti Twitter en nú velta menn fyrir sér hvort skráning Twitter á markað verði vel heppnuð. Fjallað er meðal annars um málið á vef Guardian .

Endanlegt verð á bréfum Twitter við skráningu verður staðfest á miðvikudag. Nokkur þekkt netfyrirtæki hafa verið skráð á markað á undanförnum árum með misjöfnum árangri. Skráning Google er talin nokkuð vel heppnuð á meðan bréf Groupon hafa misst helminginn af verðgildi sínu síðan þau voru skráð á markað árið 2011.