*

laugardagur, 16. október 2021
Erlent 4. nóvember 2020 15:07

Bréf Uber og Lyft taka hástökk

Gengi bréfa leigubílaþjónustufyrirtækjanna hækka um 10% eftir að íbúar Kaliforníu samþykkja að bílstjórar séu verktakar.

Ritstjórn
Uber, sem og Lyft, byggja á því að notendur geti pantað sér leigubíl í gegnum app sem hámarkar afköst bílstjóranna með því að vísa þeim nærtækasta á viðskiptavininn miðað við hvert hann vill fara.
epa

Hlutabréf í leigubílaþjónustunum Uber og Lyft hækkuðu mikið á fyrirmörkuðum í aðdraganda opnunar markaða í Bandaríkjunum í morgun sem skilað hefur sér nú eftir opnun markaða vegna niðurstaðna í kosningunum í nótt.

Nam hækkun gengis bréfa Uber 11% um tíma í nótt en þegar þetta er skrifað nemur hún 9,79%, upp í 39,27 dali, en hækkun Lyft var um tíma 15% á fyrirmarkaði en nemur nú 11,40% og er hvert bréf komið í 29,74 dali.

Fyrirtækin höfðu barist fyrir því að kjósendur í Kaliforníu myndu samþykkja svokallaða 22 til laga í ríkinu sem heimilaði að líta á ökumenn sem verktaka en ekki launþega. Höfðu fyrirtækin látið meira en 100 milljón Bandaríkjadala í kosningabaráttu um málið.

Tillagan var að lokum samþykkt með 58% atkvæða samhliða kosningum til ýmissa mála í landinu sem fram fóru í gær, en ekki er enn komin niðurstaða í forsetakosningunum sem einnig var kosið í milli sitjandi forseta Donald Trump og mótframbjóðanda hans Joe Biden.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hafði Uber hótað að hætta rekstri í Kaliforníuríki eftir að dómstóll hafði skipað fyrirtækjum að líta á ökumenn sem starfsmenn á launaskrá en ekki verktaka, en það hefði þýtt að það hefði þurft að borga þeim ýmis konar hlunnindi líkt og veikindalaun.

Hækkun bréfa Lyft er nokkru meiri en bréfa Uber, enda koma um 16% af tekjum félagsins frá Kaliforníu, meðan um 5% tekna Uber koma þaðan. Áhrifin af því að tapa málinu hefði þó getað haft mun víðtækari áhrif enda byggir viðskiptamódel fyrirtækjanna algerlega á því að verktakar geti tekið að sér akstur fyrir aðra í deilihagkerfinu sem öppin bjóða upp á á eigin vegum sem verktakar.

Stikkorð: Kalifornía Uber Lyft