Hlutabréf útgerðarfélaganna Brims og Síldarvinnslunnar hafa hækkað um 5,7% í dag. Gengi bréfanna tók stökk eftir að Hafrannsóknastofnun tilkynnti um að hækkun loðnuráðgjafar sé væntanleg næstu daga.

„Varlega áætlað má gera ráð fyrir yfir 100 þúsund tonna hækkun ráðlags hámarksafla,“ segir í tilkynningu Hafrannsóknastofnunar.

Hlutabréfaverð Brims stendur nú í 92 krónum á hlut og hefur ekki verið hærra síðan í byrjun mánaðarins. Þá er gengi Síldarvinnslunnar búið að rétta úr kútnum að hluta eftir lækkanir síðustu daga og sendur nú í 120,5 krónum á hlut.

Úrvalsvísitalan hefur þó lækkað um 1,7% í dag en hlutabréf níu félaga aðalmarkaðarins hafa fallið um meira en 1% í viðskiptum dagsins. Kvika banki og VÍS leiða lækkanir en félögin tvö hafa lækkað um meira en 2%. Þá hefur Marel fallið um 1,7% og Icelandair um 1,5%.