Hlutabréf Virgin Orbit, gervihnattarfyrirtækis Richard Branson, hafa fallið um nærri 20% í fyrstu viðskiptum í dag eftir að fyrsta tilraun félagsins til að skjóta upp gervihnöttum frá Bretlandi misheppnaðist.

Í tilkynningu segir félagið að eldflaugin hafi náð út í geim. Hins vegar hafi „frávik“ í kerfi eldflaugarinnar við annað stig eldflaugaskotsins komið í veg fyrir að gervihnettirnir komust á braut. Gervihnettir sjö viðskiptavina voru um borð í eldflauginni.

Virgin Orbit notast við sérhannaða Boeing 747 flugvél sem hreyfanlegan skotpall. Fyrirtækið segir að þessi leið veiti þeim verulegt forskot við jarðbundna skotpalla, ásamt því að draga úr kolefnislosun og hljóðtruflunum.

Virgin Orbit var skráð á markað í gegnum SPAC-samruna árið 2021 á genginu 10 dalir á hlut. Gengi félagsins hefur síðan fallið um 85% og stendur nú í 1,5 dölum.