Gengi bréfa Vátryggingafélags Íslands VÍS hefur hækkað um 2,43% það sem af er degi og um klukkan 13:00 í dag nam velta með bréfin rétt rúmum 268 milljónum króna.

VÍS skilaði uppgjöri fyrir fyrsta ársfjórðung ársins síðastliðinn föstudag og fjallar Greining Íslandsbanka um uppgjörið í Morgunkorni sínu í dag. Fjármunatekjur VÍS námu alls 976 milljónum króna og ávöxtun fjáreigna að nafnvirði 2,8% á fyrsta ársfjórðungi.

Félagið vinnur að því að færa hluta fjáreigna í eignir sem að jafnaði gefa af sér hærri ávöxtun en ríkistryggð bréf, þannig hefur hlutdeild hlutabréfa og annarra skráðra verðbréfa aukist á kostnað ríkisskuldabréfa.