Tap af rekstri Íslandspósts í fyrra nam 118,8 milljónum króna. Það er mun lakari afkoma en árið á undan þegar hagnaðurinn nam 52,6 milljónum. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) var um 350 milljónir króna. Heildartekjur félagsins á síðasta ári námu um 6,8 milljörðum króna og jukust lítillega frá fyrra ári. Heildareignir voru 4,8 milljarðar króna í árslok 2013 og eigið fé nam um 2,4 milljörðum króna.

Í tilkynningu frá Íslandspósti segir að fjárhagsáætlunar fyrir árið 2013, sem eru á forræði stjórnenda félagsins, hafi gengið eftir í öllum meginatriðum. Á hinn bóginn hafi ekki náðst fram breytingar á verðlagningu einkaréttarbréfa og fjölda dreifingardaga í sveitum, sem áætlunin gerði ráð fyrir. Sá forsendubrestur skýri 235 milljóna króna lægri tekjur og 100 milljóna króna minni kostnaðarlækkun á árinu 2013 en áætlað hafi verið.

„Á undanförnum árum hefur hvort tveggja í senn verið gripið til verðskrárhækkana til þess að standa undir þeirri þjónustu sem lög og reglur gera ráð fyrir og umtalsverðra aðgerða til hagræðingar í rekstri dreifikerfisins. Á sama tíma og fækkun hefur orðið á einkaréttarbréfum er vöxtur í ýmsum öðrum vöruflokkum í almennum flutningum, vörusölu og þjónustu og hafa tekjur af þeirri starfsemi í auknum mæli staðið undir kostnaði við svokallaða alþjónustu, sem fylgir starfsleyfi Íslandspósts og fyrirtækinu er skylt að sinna,“ segir í tilkynningu frá Íslandspósti.

Í tilkynningunni segir að á árinu 2013 hafi bréfasendingum fækkað enn sem fyrr, þótt hlutfallslega hafi lítillega dregið úr árlegri fækkun. „Magnminnkunin nam um 6,5% og var það mjög nærri því sem áætlun ársins gerði ráð fyrir. Samdráttur í bréfasendingum á Íslandi er sambærilegur því sem gerst hefur í næstu nágrannalöndum, en það hefur annars vegar leitt af þróun efnahagsmála og hins vegar og ekki síður af yfirlýstri stefnu stjórnvalda um pappírslaus viðskipti. Gögn, sem flestir hafa vanist í bréfaformi, eru nú í ríkari mæli send með rafrænum hætti hér á landi og hefur Íslandspóstur leitast við að mæta þeim breytta samskiptamáta eins og lög gera ráð fyrir með því að þróa og bjóða rafræna póstþjónustu á sambærilegan hátt og önnur póstfyrirtæki,“ segir í tilkynningunni.