Samkvæmt Yahoo Finance hafa hlutabréf netþjónustufyrirtækisins Fastly hækkað töluvert frá opnun markaða vestanhafs þrátt fyrir að bilun í kerfi félagsins hafi valdið því að fjöldi vinsælla vefsíðna hafi legið niðri í um klukkutíma í morgun.

Bréf félagsins höfðu hækkað um rúm 11% þegar best lét í dag en gengi þeirra er nú um 4% hærra en við opnun markaða og standa nú í tæpum 53 Bandaríkjadollurum.

Bilunin hafði áhrif á ótalmargar vefsíður og smáforrit samkvæmt frétt CNN. Meðal þeirra vefsíða sem að lágu niðri má einna helst nefna CNN, BBC og vefsíða breskra stjórnvalda, gov.uk. Þá hafði bilunin einnig áhrif á Reddit, Spotify, Twitch og Amazon.

Þjónusta Fastly gengur út á að minnka tímann sem það tekur að hlaða vefsíður og smáforrit meðal annars með því að slétta úr umferð um vefsíður, sem að hjálpar einnig gegn árásum við svokölluðum DoS netárásum.