Gengi hlutabréfa í Icelandair Group hafa hækkað mikið á síðustu árum. Í byrjun árs 2011 stóð gengið í 3,15 en við lok markaða í fyrradag var það 35,15. Jafngildir þetta 1.016% hækkun. Á einu ári hefur gengið hækkað úr 21,55 eða 63%.

Icelandair Group birti uppgjör í vikunni. Óhætt er að segja að reksturinn hafi gengi vel á síðasta ári. Hagnaður félagsins nam 111,2 milljónum dollara eða ríflega 14,1 milljarði króna. Á milli ára jókst hagnaður félagsins um 44,7 milljónir dollara eða 67%.
Elvar Ingi Möller, hjá Greingardeild Arion banka, segist hafa gert fyrir að félagið myndi ljúka rekstrarárinu í samræmi við EBITDA-áætlun félagsins. Raunin hafi síðan orðið sú að EBITDA hafi verið tæpum 4 milljónum dollara umfram áætlun.

„Uppgjörið var því umfram okkar væntingar," segir Elvar Ingi.  „Á síðastliðnu ári voru það einkum þrír þættir sem lögðu grunninn að hærri framlegð og auknum hagnaði Icelandair. Leiðakerfi félagsins stækkaði um 15% á síðastliðnu ári og samhliða því jókst sætanýtingin í millilandafluginu alla mánuði síðastliðins árs — að meðaltali um tæp þrjú prósentustig milli ára. Síðast en ekki síst naut félagið svo góðs af lægra olíuverði, en eldsneytiskostnaður félagsins dróst saman um tæp 16% frá fyrra ári, þrátt fyrir fyrrnefndan vöxt leiðakerfisins."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .