Þetta ár virðist ætla að verða versta ár Berkshire Hathaway, fjárfestingarfélags Warren Buffets síðan 2008.

Verð A- og B-hlutabréfa í félaginu hafa lækkað um 13% það sem af er ári. Verð A-hluta er nú um 195 þúsund Bandaríkjadalir, eða rúmlega 25 milljónir króna og verð B-hluta er um 130 þúsund dalir, tæpar 17 milljónir króna.

Hlutabréf í félaginu hafa ekki fallið svona mikið í verði síðan árið 2008, en þá lækkuðu bréfin um 32%. Hlutabréfin í félaginu stóðu sig þó betur það árið heldur en hlutabréfavísitölur almennt, en t.d. þá féll S&P 500 vísitalan um 38,5% það árið.

Í ár hefur S&P 500 vísitalan einnig lækkað í verði, en einungis um 2% og er Berkshire Hathaway því að standa sig verr. Síðast þegar félagið stóð sig verr heldur en S&P 500 var árið 1999.

Stærri eignarhlutir féllu í verði

Meðal fyrirtækja sem Berkshire á stóran hlut í og féllu í verði má nefna:

  • American Express - AXP - féll um 26,5% á árinu.
  • Procter & Gamble - PG - féll um 13,8% á árinu.
  • Walmart - WMT - féll um 31,5% á árinu.
  • Davita Healthcare Partners - DVA - féll um 9,4% á árinu.
  • Goldman Sachs - GS - féll um 8,9% á árinu.