Liðnar eru ríflega 8 vikur síðan Stofnfjármarkaði SPRON var komið á laggirnar. Á þessum tíma hefur tæpur helmingur stofnfjár skipt um hendur og gengið hækkað um 40% eða úr 5,0 í 7,0 eins og kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag. Samkvæmt upplýsingum frá SPRON er erfitt að segja fyrir um framvindu markaðarins og vart hægt að búast við því að veltan verði jafn mikil og fyrstu vikurnar gefa til kynna. Viðskipti síðustu tvær vikurnar hafa verið frekar dauf, en nú virðist þó sem markaðurinn sé að taka við sér aftur. Það eru HF Verðbréf hf. í Borgartúni 20 sem hafa milligöngu um viðskiptin af hálfu SPRON en einnig hefur MP Fjárfestingabanki miðlað bréfunum.

Talsvert hefur verið um það, að stofnfjárbréf eru sögð glötuð, sem hefur erfiðleika í för með varðandi sölu þeirra. Nauðsynlegt er að fá ógildingardóm vegna hinna glötuðu bréfa svo unnt sé að gefa út ný. SPRON hefur ákveðið að hafa frumkvæði að málarekstri til ógildingar á þessum bréfum.