Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er ekki búið að selja 65% hlut Novators, fjárfestingafélags Björgólf Thors Björgólfssonar, í búlgarska símafyrirtækinu BTC. Björgólfur Thor staðfesti það í samtali við búlgarska fréttamiðla um helgina.

Í sumum fréttamiðlum kemur fram að Björgólfur Thor hafi hitt búlgarska ráðamenn til að gera grein fyrir áformum sínum.

Frá því var greint fyrir stuttu að símafyrirtækin Oger Telecom, sem staðsett er í Dubai, og Turkcell hefðu gert hæstu tilboðin í kaupréttinn að 65% hlut í búlgarska símafyrirtækinu BTC.


Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, tryggði sér kaupréttinn að 65% hlut í BTC í desember árið 2005 og samkvæmt þeim tilboðum sem bárust er félagið verðmetið á allt að 173 milljarða króna. Samkvæmt fréttum frá Reuters fréttastofunni voru kaupin yfirstaðin en það mun ekki vera rétt samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Reuters áætlað kaupverðið á bilinu 1,2 til 1,3 milljarðar evra eða jafnvirði 105-115 milljarðar króna.


All bárust fjögur tilboð, meðal annars frá hóp fjárfestingasjóða sem inniheldur Texas Pacific og Warburg Pincus. Mid Europa-sjóðurinn gerið einnig kauptilboð í kaupréttinn. Hins vegar voru hæstu tilboðin frá Oger Telecom og tyrkneska félaginu Turkcell.

Novator ákvað að ráða Lehman Brothers í byrjun árs til að vega og meta mögleika á sölu í kjölfar áhuga hugsanlegra kaupenda að félaginu. Eignarhald Björgólfs Thors er með þeim hætti að hann á kauprétt að 65% hlut eignarhaldsfélagsins Viva Ventures í BTC. Eignarhaldsfélagið er í eigu bandaríska fjárfestingasjóðsins Advent International.

BTC er stærsta símafélag Búlgaríu og hjá félaginu starfa um 20 þúsund manns.