„Okkur hefur verið mjög vel þakkað fyrir bréfið – síðan það kom óvart inn á fjölmiðla," segir Sigtryggur Jón Björnsson, framsóknarmaður og kennari á Hvanneyri, búsettur á Birkimel 11 í Varmahlíð í Skagafirði.

Sigtryggur vísar þarna til bréfs sem hann og Gunnar Oddsson í Flatatungu rituðu til Valgerðar Sverrisdóttur, varaformanns Framsóknarflokksins. Í bréfinu er Valgerður meðal annars harðlega gagnrýnd fyrir viðhorf sín til aðildar að Evrópusambandinu og einkavæðingu bankanna.

Bréfið komst í hámæli í vikunni, ekki endilega vegna innihaldsins, heldur vegna þess að Bjarni  Harðarson, þá þingmaður Framsóknarflokksins, sendi það óvart til fjölmiðla, með beiðni til aðstoðarmanns síns um að senda það nafnlaust áfram. Í kjölfarið sagði Bjarni af sér þingmennsku.

Steingrímsarmur á móti EES

Sigtryggur Jón segir að fyrr í haust hafi hann og Gunnar, sent Guðna Ágústssyni, formanni Framsóknarflokksins, bréf um svipað efni, og að þingflokkurinn hafi fengið afrit af því. „Valgerður svaraði því og það er ástæðan fyrir þessu bréfi," útskýrir Sigtryggur.

„Flokkurinn hefur verið klofinn síðan Halldór Ásgrímsson tók við og Steingrímur Hermannsson hætti," segir hann og rifjar upp að Steingrímsarmur flokksins hafi verið á móti ESS-samningnum. Hinn armurinn hafi setið hjá og þar með Halldór.

„Síðan þá hefur óánægja kraumað í flokknum. Guðni hefur haldið uppi sprota Steingríms Hermannssonar og hann hefur viljað halda uppi þessari gömlu frjálslyndu miðflokks stefnu. Við sáum ekki ástæðu til að einkavæða og breyta hagkerfinu," segir hann og bætir því við að Steingrímur og hans fylgismenn hafi haft rétt fyrir sér á sínum tíma það sé nú komið í ljós.

Nú eigi að selja hluta af fullveldi þjóðarinnar vegna óráðsíu og eyðslu, sem rekja má til einkavæðingarinnar. „Og ef það er rétt hjá Valgerði að EES-samningurinn hafi opnað leið fyrir Icesave-reikningana þá getið þið á Viðskiptablaðinu reiknað út hvað EES-samningurinn hefur kostað okkar."

Ekki dugi að hlaupa undir pilsfald ESB

Sigtryggur segir að það eigi að leggja til hliðar alla umræðu um Evrópusambandið á meðan verið er að koma þjóðinni út úr brimskafli efnahagsmála. „Ef þú hefur tapað trausti umheimsins, hvort sem þú ert einstaklingur eða þjóð, þá nærðu því ekki aftur þótt þú skiptir um verkfæri þ.e. gjaldmiðil."

Ekki dugi því að hlaupa undir pilsfald Evrópusambandsins, segir hann. Nær væri að breyta vinnubrögðunum, þ.e.  hagstjórninni og peningamálum.