Til að koma eiginfjárhlutfalli Íbúðalánasjóðs í 4% þarf að leggja honum strax til þrjá milljarða króna og rúmlega þrjá milljarða króna í viðbót til að sama hlutfall verði 5%. Samtals þarf því að bæta eiginfjárstöðu Íbúðalánasjóðs um 6 til 6,5 milljarða króna til að ná langtímamarkmiði sjóðsins um 5% eiginfjárhlutfall. Í árslok 2009 var eiginfjárhlutfallið 3% samkvæmt ársreikningi.

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að starfshópur á vegum félagsmálaráðuneytisins telji að Íbúðalánasjóður þurfi allt að tuttugu milljarða króna frá ríkinu til ársins 2014 til að eiginfjárhlutfall sjóðsins verði eins og vera eigi. Þá er tekið mið af fyrirhuguðum útlánatapi vegna greiðsluerfiðleika lántakenda.

Tapaði 3,2 milljörðum í fyrra

Samkvæmt ársuppgjöri Íbúðalánasjóðs fyrir árið 2009 tapaði sjóðurinn 3,2 milljörðum króna. Eigið fé var rétt rúmir 10 milljarðar króna. Í lok árs 2008 var eigið fé sjóðsins 13,2 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall mælir fjárhagslegan styrk fyrirtækja. Í reglugerð segir að langtímamarkmið um 5% eiginfjárhlutfall sé til að tryggja að sjóðurinn geti mætt skuldbindingum sínum. Ef hlutfallið stefnir niður fyrir 4% skuli stjórn sjóðsins vekja athygli ráðherra á stöðunni og auka tíðni skýrslugjafar.

Hafa hækkað álag á ný lán

Stjórn Íbúðalánasjóðs hefur meðal annars brugðist við erfiðri fjárhagsstöðu með því að hækka álag á ný lán tvisvar á þessu ári. Það álag leggst á ný lán og bætir stöðuna einungis til langs tíma. Til að bæta eiginfjárhlutfall sjóðsins fljótt verður að leggja honum til meira eigið fé.

Stærsta skýringin á tapi Íbúðalánasjóðs á síðasta ári er niðurfærsla krafna á lánastofnanir að upphæð 2,9 milljarðar króna. Sú niðurfærsla kemur til viðbótar við 7,9 milljarða króna niðurfærlsu vegna uppgjörs fyrir árið 2008. Virðisrýrnun krafna á lánastofnanir nemur því tæplega 11 milljörðum króna síðastliðin tvö ár. Ágreiningur er um uppgjör á innstæðum sem Íbúðalánasjóður á hjá Straumi, uppgjör á afleiðusamningum og mögulegri skuldajöfnun. Þessir liðir geta haft áhrif á endanlegt uppgjör.

Virðisrýrnun útlána 1,8 milljarðar króna

Þá nemur virðisrýrnun útlána í fyrra samtals 1,8 milljörðum króna sem færist til gjalda. Samtals er afskriftarreikningur útlána 3,1 milljarði króna. Samkvæmt ársreikningi er upphæð lána í vanskilum 3,8 milljörðum króna. Það eru bara lán til einstaklinga. Í fyrra var samsvarandi upphæð 1,8 milljarðar króna og hafa vanskil því aukist mikið milli ára.