Íslenska fyrirtækið Industria ehf. hefur opnað skrifstofu í Kína og verður landið þar með hið sjötta þar sem Industria hefur starfsemi, segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Industria selur alhliða breiðbandslausnir til fjárfestinga- og fjarskiptafyrirtækja, og á Asíumarkaði hefur orðið mikill vöxtur í þessum geira undanfarin misseri, segir í tilkynningu Industria.

?Sem ein af svæðisskrifstofum Industria mun Kínaskrifstofan vinna náið með öðrum félögum í samsteypunni og hjálpa til við að opna Kínamarkað fyrir lausnum fyrirtækisins, sem og að auðvelda aðgang Industria að tæknilausnum frá kínverskum framleiðendum vegna annarra verkefna," segir Guðjón Már Guðjónsson, forstjóri Industria.

?Eitt af helstu verkefnum Industria Kína verður að vinna með Zignal, stafræna sjónvarplausn Industria, því á Kínamarkaði eru gríðarlegir möguleikar að opnast með starfrænni sjónvarpstækni."

Skrifstofur Industria eru til húsa í News Building-byggingunni í Shenzhen, um 35 km frá Hong Kong. Shenzhen er örast vaxandi borg Kína með yfir 10 milljón íbúa, og er á miðju aðalsvæði hátækniiðnaðar í Kína

Framkvæmdastjóri Kínaskrifstofu Industria er Song Shen. Shen hefur meistaragráðu i verkfræði frá háskólanum í Zhejiang og yfir 20 ára reynslu í hátækniiðnaðinum og hefur meðal annars starfað hjá geimrannsóknarstofnun Kína ásamt ýmsum hátæknifyrirtækjum.

Lausnir Industria eru sérstaklega ætlaðar fjárfestum eða fjarskiptafyrirtækjum sem hyggjast byggja upp næstu kynslóðar fjarskiptanet og afþreyingarþjónustu. Heildarlausn frá Industria er þegar í notkun hjá afþreyingar- og breiðbandsfyrirtækinu Magnet Networks á Írlandi sem miðlar sjónvarpsefni, kvikmyndum og annarri afþreyingu gegnum dreifinet sem nær til allt að 70% íbúa landsins.

Industria hlaut fyrr í mánuðinum eftirsótt verðlaun frá hinu þekkta viðskiptatímariti Red Herring sem eitt af 100 framsæknustu fyrirtækjum í Evrópu, en Kínaskrifstofan markar nú þau tímamót hjá Industria að vera fyrsta skrifstofa fyrirtækisins utan Evrópu.

Starfsmenn Industria eru um 110 talsins í sex löndum, og hefur fyrirtækið á að skipa reynslumiklu fólki sem m.a. hefur tekið þátt í uppbyggingu íslenskra símafyrirtækja, auk fjölmargra erlendra afþreyingar- og fjarskiptafyrirtækja.