Icelandair Cargo hefur tekið við sinni fyrstu Boeing 767 breiðþotu sem félagið mun nýta í fraktflug sitt. Flugvélin kom til landsins á dögunum og fer hún í sitt fyrsta flug í dag til Liège í Belgíu. Auk Liège verða reglulegir áfangastaðir New York og Chicago en flogið verður þrisvar sinnum í viku á hvern áfangastað. Von er á annarri 767 þotu í flotann í byrjun næsta árs og hyggst félagið þá hefja beint fraktflug til Los Angeles auk þess að auka tíðni á aðra frakt áfangastaði sína.

Í fréttatilkynningu þar sem sagt er frá þessu segir að félagið hafi boðið upp á fraktflug með tveimur Boeing 757 fraktvélum um árabil samhliða því að nýta farþegaflug Icelandair til fraktflutninga. Breiðþoturnar muni skapa fjölmörg ný tækifæri fyrir inn- og útflutningsaðila en þær hafi meira en tvöfalda flutningsgetu miðað við Boeing 757 þegar horft sé til rúmmáls, auk þess sem flugdrægi þeirra sé mun lengra. Það gefi tækifæri til þess að opna nýja markaði sem ekki sé flogið til á farþegavélum í dag.

„Lengra drægi skapar mikil tækifæri til að fjölga áfangastöðum og þannig áformar félagið að bjóða upp á beint fraktflug til Los Angeles á næsta ári. Þar með mun dreifikerfi Icelandair Cargo ná á þrjú mikilvæg markaðssvæði í Bandaríkjunum -- Los Angeles á vesturströndinni, Chicago í miðríkjum og New York á austurströndinni. Í Kaliforníu er ein mesta ávaxta- og grænmetisræktun í heimi og tenging þangað getur stytt flutningstíma á þessum vörum til Íslands mikið. Íslenskir fiskútflytjendur hafa byggt upp sterkan markað á austurströnd Bandaríkjanna en með reglubundnu flugi til Kaliforníu og til miðríkjanna skapast ný og spennandi tækifæri. Að auki sér Icelandair mikil tækifæri í því að byggja upp tengimiðstöð fyrir frakt á Keflavíkurflugvelli, líkt og félagið hefur gert í farþegaflugi. Markaðurinn fyrir vöruflutninga á milli Evrópu og Norður-Ameríku er sá stærsti í heimi og eru mikil vaxtartækifæri fyrir Icelandair Cargo á þeim markaði,“ segir í tilkynningunni.

Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo:

„Við eru mjög spennt að hefja fraktflug á breiðþotum. Umsvif okkar í fraktflutningum hafa aukist mikið undanfarin ár og munu nýju vélarnar skapa enn meira rými til vaxtar. Við höfum skýra framtíðarsýn um að byggja upp fraktmiðstöð á Keflavíkurflugvelli fyrir vöruflutninga á milli Evrópu og Norður-Ameríku, auk þess sem Asía gæti bæst við í framtíðinni. Með því að bæta við tengingum opnast ný og spennandi tækifæri fyrir íslenska inn- og útflutningsaðila, sérstaklega hvað varðar flutninga á ferskvörum.“