*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 8. maí 2021 10:03

Breiðþotur næstum banabiti Atlanta

Atlanta var nærri því að enda með fimm breiðþotur í fanginu í upphafi faraldursins sem forstjóri félagsins telur að hefðu að líkindum fellt Atlanta.

Ingvar Haraldsson
Baldvin Már Hermannsson, forstjóri Air Atlanta.
Eva Björk Ægisdóttir

 Baldvin Már Hermannsson, forstjóri Air Atlanta segir fyrstu tvo mánuði ársins 2020 hafa verið einhverja bestu byrjun árs í farþegaflugi í sögu félagsins. Félagið var í sóknarhug og í lok febrúar skrifaði það undir leigusamninga á fimm breiðþotum af gerðunum Boeing 777-300 og Airbus 330-200 sem nýta átti í flug til og frá Sádi-Arabíu.

Þá skall faraldurinn á og farþegaflug félagsins lagðist af. Baldvin segir að sem betur fer hafi félagið komist undan því að leigja vélarnar. „Hefði faraldurinn farið af stað tveimur vikum síðar hefðum við setið uppi með risastórar leiguskuldbindingar gagnvart GECAS, einu stærsta leigufélagi heims, sem hefði að öllum líkindum dregið félagið í þrot. Blessunarlega voru fyrirvarar í leigusamningunum sem komu í veg fyrir að þeir tækju gildi. Þetta var dagaspursmál.“

Sjá einnig: Sjö milljarðar í arð til eigenda Atlanta

Gera hefur þurft miklar breytingar á rekstrinum enda stóð farþegaflug undir 65-70% af tekjunum. Langstærstur hluti þess er vegna flugs til og frá Sádi-Arabíu.Félaginu tókst þó að snúa rekstrinum við og var rekið með hagnaði á síðasta ári.

Fraktflutningar á flugi fram á næsta ár

Vöxtur í fraktflugi hefur verið félaginu til happs. Farþegaflugvélar flytja oftar en ekki frakt í hverri ferð en slíkir fraktflutningar hafa dregist verulega saman í faraldrinum vegna hruns í farþegaflugi. Fraktflugvélum Atlanta fjölgaði úr sjö í níu og nýting hverrar vélar batnaði um 60-70%.

„Við þurftum að fara úr því að vera farþega- og fraktflugfélag í því að vera algjörlega fraktflugfélag. Það kallaði á miklar hagræðingaraðgerðir og endurskipulagningu og við höfum þurft að láta fólk frá okkur sem við sjáum mikið eftir,“ segir Baldvin. 

„Ég á von á því að takturinn í fraktflugi verði áfram hraður út þetta ár og fram á það næsta. Þegar við förum að nálgast sumarið 2022 býst ég við að nýtingin minnki og verð fari að lækka aftur. Á þeim tímapunkti verðum við að vera tilbúin með eitthvað annað.“

Tekur tíma að byggja upp í Sádi-Arabíu

Þá horfir Baldvin helst til þess að hefja farþegaflug á ný. Flugið til og frá Sádi-Arabíu muni þó vart fara af stað með hvelli.

„Ég á ekki von á því að við sjáum það fara aftur í gang fyrr en á næsta ári. Það mun taka langan tíma að byggja það aftur upp þannig að umsvifin verði orðin álíka og fyrir COVID,“ segir Baldvin.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Air Atlanta