Svissneski úraframleiðandinn Breitling íhugar nú sölu. Þetta kemur fram á fréttaveitu Bloomberg. Ferlið er enn á fyrstu stigum, en líklegt er að stórar samsteypur kaupi merkið, frekar en framtakssjóðir.

Samkvæmt Bloomberg er aðal ráðgjafi félagsins fjárfestingarbankinn GCA Altium Ltd. Engar loka ákvarðanir hafa verið teknar og er líklegt að fyrirtækið sé bara að kanna möguleika á markaði.

Félagið er 132 ára og er eitt fárra fyrirtækja sem hefur haldist sjálfstætt. Margir úraframleiðendur hafa verið keyptir af samsteypum á borð vð Swatch Group Ag, Richemont, LVMH og Kering SA.

Fyrirtækið seldi fyrir ríflega 370 milljónir svissneskra franka, eða um 41 milljarð íslenskra króna. Úrin kenna sig við flugheiminn og eru vinsæl meðal stórstjarna á borð við John Travolta, en hann er sérstakur áhugamaður um flug.

Svissneski úraheimurinn hefur ekki átt sjö dagana sæla í ár. Samtök svissneksra úraframleiðanda hafa tekið saman sölutölur frá árinu 1988 og benda þær til þess að sala hafi dvínað í Bandaríkjunum, Evrópu og í Kína.

Breitling úr byrja í 2.500 svissneskum frönkum og er markaðshlutdeild þeirra um 5% í high-end úrabransanum í Sviss. Fyrirtækið var stofnað árið 1884 af Leon Breitling í Jura fjöllunum. Fyrirtækið naut mikilla vinsælda fyrir að þróa úr sem nýttust flugmönnum við tímamælingar og á íþróttaviðburðum til þess að taka tímann.