Burðarás, KEA, Ólafur Jóhann Ólafsson, Talsímafélagið ehf. og TM hafa í sameiningu gert tilboð í 98,8% hlut ríkisins í Símanum og var tilboðinu skilað inn til Morgan Stanley í London laust fyrir kl. 15.00 í dag. Tilboðið felur það í sér, að fjárfestarnir hafa gert samning við Almenning ehf., um að 30% hlutur í Símanum verði seldur til almennings á Íslandi í opnu útboði, um leið og fært þykir að skrá Símann á markaði og eigi síðar en sex mánuðum eftir að kaupin fara fram. Samkvæmt tilboðinu, verður enginn fjárfestanna með meira en 35% hlut, eftir að 30% hafa verið seld til almennings á markaði.

"Þessi niðurstaða er okkur hjá Almenningi ehf, mikið fagnaðarefni. Fái þessi hópur fjárfesta að kaupa Símann, þá hefur aðkoma almennings að Símanum verið tryggð, á sambærilegum eða jafnvel betri kjörum en fagfjárfestarnir kaupa á," sagði Agnes Bragadóttir, formaður stjórnar Almennings ehf, eftir að tilboðinu hafði verið skilað inn. Hún sagði forsvarsmenn Almennings ehf sömuleiðis vera afar ánægða með hina breiðu samsetningu og reynslu fjárfestanna sem gert hefðu tilboð í Símann. "Við treystum þessum hóp fjárfesta afar vel, til þess að leiða Símann til aukins vaxtar og arðsemi, hér innanlands sem utan," sagði Agnes.

?Það er ánægjulegt fyrir mig að taka þátt í því að almenningi verði greidd leið að Símanum þegar í kjölfar útboðsins," sagði Ólafur Jóhann Ólafsson, laust eftir undirritun tilboðsins í dag. ?Ég vona að þessi leið og aðkoma sem flestra landsmanna muni verða til sáttar og farsældar fyrir hluthafa, neytendur og fyrirtækið sjálft."

Fjárfestarnir hafa jafnframt skuldbundið sig til þess að selja 30% hlutinn til almennings á sömu kjörum og þeir koma til með að kaupa sína hluti á, að því undanskildu, að kostnaður sem fellur til vegna tilboðsgerðar og útboðs, fellur ekki á almenning, heldur á þann hóp fjárfesta sem nú hefur gert tilboð í Símann.

Fram kemur með skýrum hætti í tilboði ofangreindra fjárfesta, að þeir hyggja á alþjóðlega sókn, ef þeir eignast Símann. Tilgreina þeir m.a. í tilboði sínu, hvers konar sóknarfæri felist í því fyrir fyrirtækið, að Ólafur Jóhann Ólafsson, með sína alþjóðlegu reynslu, Björgólfur Thor Björgólfoson, með sínar fjárfestingar í erlendum símafyrirtækjum og Óskar Magnússon, forstjóri TM og fyrrum forstjóri OgVodafone, með sína miklu reynslu, m.a. frá OgVodafone, sameini krafta sína og þekkingu í þágu eins fyrirtækis, Símans, með það að markmiði að efla Símann og auka vöxt hans í framtíð, á innlendum sem erlendum mörkuðum.

Þá kemur fram í tilboði fjárfestanna, að þeir vilji beita sér fyrir því, að ákveðin starfsemi Símans verði flutt út á land, reynist skoðun á slíku fyrirkomulagi hagkvæm og til hagsbóta fyrir félagið.

Samkomulag er um það milli fjárfestanna og Almennings ehf að skipting á eignarhaldi Símans verði þannig, eftir að félagið hefur verið skráð á markaði, að enginn einn hluthafi ráði yfir meira en 35% hlut í Símanum.

Þeir Friðrik Jóhannsson, forstjóri Burðaráss, Sigfús Ingimundarson, framkvæmdastjóri Talsímafélagsins ehf, Óskar Magnússon, forstjóri TM, sem jafnframt er fyrrverandi forstjóri OgVodafone og Andri Teitsson, forstjóri KEA segjast allir binda miklar vonir við þennan góða fjárfestingarkost, í þágu eigin fyrirtækja, Símans sjálfs og starfsmanna hans og síðast en ekki síst, í þágu þorra Íslendinga, viðskiptavina Símans. Þett kemur fram í tilkynningu sem send var út vegna tilboðsins í dag.

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans annaðist tilboðsgerðina fyrir ofangreindan hóp fjárfesta og Almenning ehf.