„Við erum kannski ekki Vestmannaeyjar, en þetta er gaman,“ segir Siggi Hlö plötusnúður, en um helgina verður risadansleikur á Spot í Kópavogi.

Á laugardags- og sunnudagskvöldið mun Siggi Hlö hita upp með diskótónlist og síðan taka Greifarnir við. „Ég spila síðan inn á milli þegar Greifarnir fara í pásu svo við verðum bara saman í þessu.“

Viðburðum fyrir þá sem fara hvergi um verslunarmannahelgina fjölgar. Innipúkinn er tónlistarhátíð sem stendur yfir alla helgina og dansleikurinn á Spot í Kópavogi er nú haldinn í fjórða sinn. „Á sunnudagskvöldinu verður brekkusöngur á grasbalanum fyrir framan Spot. Bjössi, gítarleikari Greifanna, setur sig í Árna Johnsen stellingar og spilar undir fjöldasöng. Fullt af fólki kemur úr miðbænum bara fyrir brekkusönginn og fólk úr hverfinu líka. Þetta er mjög skemmtilegt,“ segir Siggi Hlö fullur eftirvæntingar.