Jón Óttar Ólafsson, sem starfaði á árunum 2009 til 2012, sagði í kvöldfréttum RÚV að innan embættis sérstaks saksóknara hefðu iðulega verið stundaðar hleranir á símum lögmanna við skjólstæðinga sem voru til rannsóknar hjá embættinu. Slíkt sé hinsvegar ólöglegt, en hafi engu að síður „verið gert í mjög mörgum málum,“ eins og Jón fullyrti í kvöldfréttum RÚV.

Jón sagði umrædd samtöl gjarnan spiluð í hátölurum hjá embættinu þar sem saksóknarar og löglærðir starfsmenn embættisins sátu gjarnan og hlustuðu. Hann hafi sjálfur oft hlustað á slík samtöl, og hann hafi jafnframt vitað að slíkt væri ólöglegt.

„Það var ákveðinn brenglaður hugsunarháttur innan embættisins og það er svolítið mikið við og þeir: Við löggan, góðir, á móti einhverskonar vondum bankamönnum,“ segir Jón Óttar. Réttindi sakborninganna hafi því í sumum tilfellum mætt afgangi í þágu þessa brenglaða hugsanahátts.

Athygli ríkissaksóknara var vakin á þessum símhlerunum sem taldi ekki tilefni til að hefja sakamálarannsókn vegna þessa.

Sérstakur saksóknari hefur hafnað þessum ásökunum. Sigurður Tómas Magnússon, ráðgjafi hjá embættinu, segir þetta einnig vera ósannindi.