Iðnfyrirtæki á Norður- og Austurlandi eru nú mörg hver búin að koma sér upp olíukötlum til raforkuframleiðslu. Ástæðan er sú að afhendingaröryggi raforku er ótryggt á köflum og hætt við að starfsemi skerðist, tryggi þau ekki sjálf aðgang að rafmagni á álagstímum.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er Vífilfell á Akureyri eitt þeirra fyrirtækja sem hafa þurft að nota olíukatla til rafmagnsframleiðslu, þegar ekki fæst afhent sú raforka sem þarf. Heimildir blaðsins herma að olíukatlar hafi verið keyrðir í allt að átta vikur árin 2013 og 2014.

Vífilfell framleiðir ýmsa gosdrykki, en í verksmiðju félagsins á Akureyri er meðal annars bruggaður Víking bjór. Slík framleiðsla þolir illa stöðvanir vegna orkuskorts.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir í samtali við Viðskiptablaðið að brýnt sé að auka flutningsgetu á svæðinu. „Byggðalínukerfið er algjörlega sprungið,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .