Verð Brent hráolíu féll um allt að 17% snemma í morgun og fór undir 16 Bandaríkjadali, sem er lægsta verð sem sést hefur á þessari öld.

Innan-dags verðið náði sér aftur á strik þegar líða tók á daginn, og stendur nú í tæpum 20 dölum, en eftir stendur þó um 30% lækkun það sem af er vikunni.

Eftirspurn eftir olíu hefur hrunið vegna kórónufaraldursins, og hið bandaríska WTI viðmið varð stuttlega neikvætt um hátt í 40 dali um daginn, þegar miðlarar reyndu í óðagoti að losa stöður sínar í framvirkum samningum áður en til afhendingar kæmi, og geymslupláss var við það að klárast.

Brent olíuverð hefur verið stöðugra en WTI að miklu leyti vegna þess að framvirkir samningar eru gerðir upp með millifærslu í stað afhendingar raunverulegrar olíu, og stór hluti olíunnar er afhentur sjóleiðis, sem þýðir að ekki myndast sami þrýstingur á geymslupláss á einum tilteknum stað.

Markaðsaðilar eru þó farnir að hafa áhyggjur af því að olíugeymslur á sjó gætu einnig fyllst á næstunni, en olíumagn í slíkum geymslum hefur ríflega tvöfaldast síðastliðnar átta vikur.

Umfjöllun BBC .

Umfjöllun Financial Times .