Bresk dagblöð og breski ríkismiðillinn BBC hafa tekið höndum saman og biðlað til þarlendra yfirvalda um að koma í veg fyrir að fjölmiðlafyrirtæki Rupert Murdoch eignist British Sky Broadcasting Group (BSkyB). Fyrirtækið rekur meðal annars Sky-sjónvarpsstöðvarnar. Þær eru stærstu áskriftarstöðvar Bretlands.

Bresku miðlarnir telja að frekara eignarhald Murdoch skaði almannahagsmuni. Forsvarsmenn miðlanna, þar á meðal forstjóri BBC og eigendur the Daily Telegraph og the Guardian, hafa sent viðskiptaráðherra bréf þar sem þeir leggjast gegn kaupunum.

Í bréfinu segir að yfirtaka félags Murdoch, sem heitir News Corp., á BSkyB myndi auka umsvif Bandaríkjamannsins á Bretlandseyjum.

News Corp. bauð 7,8 milljarða punda fyrir 61% hlut í BSkyB en fyrir á félagið 39%. Því tilboði var hafnað á þeim forsendum að það væri of lágt. Frekari tilboð bíða samþykkis yfirvalda.