Bresk fataverslunarkeðja hefur verið dæmd til að skila léninu starwars.co.uk til stórfyrirtækisins Disney. Fataverslunin hafði notað lénið til að leiða kaupendur í verslun sína sem tileinkuð er búningum úr Star Wars.

Móðurfyrirtækið Abscicca hefur átt lénið í meira en áratug. Það var beðið um að gefa frá sér lénið í fyrra en neitaði því. Nú hefur Nominet, sem sér um lén sem enda á .uk, sagt að Disney muni fá lénið. Þar að auki þarf Abscissa að losa sig við lénin starwars.uk, star-wars.uk, star-wars.co.uk, starwarsco.uk, starwarsco.co.uk og star-warsco.co.uk. Þó er hægt að áfrýja til 21. júlí.

„Ef Disney væri ekki að gefa út þessar nýju Star Wars myndir værum við ekki að ræða þessi mál,“ sagði Mark Lewis, forstjóri Abscissa, við BBC.

„Erum við svekktir? Já. Kemur þetta á óvart? Ekki endilega.“

Walt Disney fyrirtækið keypti Lucasfilm – framleiðslufyrirtækið á bakvið Star Wars – fyrir 4,1 milljarð bandaríkjadala árið 2012.

Talsmaður fyrirtækisins sagði að allur höfundarréttur tengdur Star Wars væri hluti af samkomulaginu.

Abscissa bauð Disney að fá lénin starwars.uk ef það gæti haldið áfram að nota starwars.co.uk, en Disney hafnaði því.