Tafir minnkuðu enn frekar á flugvöllum í Bretlandi í gær þó svo að enn sé verið að aflýsa flugferðum. Nú hefur handfarangur verið leyfður aftur á Heathrow og Gatwick og öryggisstig hefur verið lækkað á Stanstead.

Heathrow fór ekki fram á að flugfélög myndu aflýsa flugferðum í gær, en British Airways aflýsti engu að síður 20% af flugferðum sínum, þar sem þegar höfðu verið gerðar ráðstafanir vegna ástandsins á vellinum.

British Airways er einn af stærstu notendum Heathrow flugvallarins og íhugar nú að sækjast eftir skaðabótum frá flugvallarrekandanum BAA, en sérfræðingar telja að flugfélagið hafi tapað allt að 6,7 milljörðum króna vegna tafa og aflýsinga.

Flugfélögin Ryanair og Virgin Atlantic Airways taka í sama streng og segja að BAA hafi haft nægan tíma til að uppfæra öryggisgæslu á flugvöllunum og því séu þau að skoða hvort rétt sé að sækjast eftir skaðabótum.