Breska fyrirtækið BAE, sem er stærsta varnarmálafyrirtæki í Evrópu, reynist vera í átjánda sæti yfir stærstu fjárveitendur komandi þingkosninga í Bandaríkjunum, segir í frétt Financial Times. Bandarísk dótturfyrirtæki breskra fyrirtækja hafa lagt um 360 milljarða í þingkosningarnar í nóvember næstkomandi, en 68% af þeim fjármunum renna til frambjóðenda Repúblikanaflokksins.

Samkvæmt kosningareglum í Bandaríkjunum mega dótturfyrirtæki erlendra fyrirtækja stofna nefndir (pacs) sem mega safna fé frá starfsmönnum sem veita má til stuðnings pólitískra frambjóðenda. Bandarískir ríkisborgarar mega þó aðeins leggja til féð og mega erlendir ríkisborgarar ekki ráðstafa því fé sem nefndirnar safna, né borga fyrir rekstur nefndarinnar. Bandarískt dótturfyrirtæki breska lyfjaframleiðandans GlaxoSmithKline er tæknilega séð stærsti breski fjárveitandinn, en tvær aðskildar nefndir á vegum BAE veita meira fé sameinað.

Einstakir frambjóðendur Repúblikanaflokksins fengu samtals um 31 milljón króna frá nefndunum tveimur, en demókratar fengu um 16 milljónir króna. Nefndir BAE veita meiru fé til frambjóðenda þingkosninganna en mörg af stærri fyrirtækjum Bandaríkjanna, þar á meðal olíurisinn ExxonMobil, hugbúnaðarrisinn Microsoft og Citigroup bankinn.

Glaxo lagði til um 37 milljónir króna, en af þeim runnu um 26 milljónir til repúblikana, næst á listanum voru HSBC bankinn, bílaframleiðandinn Rolls-Royce og olíufyrirtækið BP. Fleiri dótturfyrirtæki erlendra aðila á borð við UBS, KPMG og Daimler Chrysler leggja einnig talsvert fé í kosningarnar, en viðmót gagnvart erlendum styrkjum í kosningum í Bandaríkjunum virðist hafa breyst töluvert. Fyrir aðeins tíu árum síðan lofaði Bill Clinton að Demókrataflokkurinn myndi ekki taka við frekara fé frá erlendum aðilum, en það loforð virðist hafa fjarað út þegar í ljós kom hve mikil umsvif erlendra fjárfesta voru.