Breska fjármálaeftirlitið var máttlaust í samskiptum við íslensku bankana og bresk sveitafélög eiga engan rétt á endurheimtingu innlána hjá sömu bönkum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í harðorðri skýrslu sérstakar nefndar á vegum breska þingsins sem vinnur nú að rannsókn vegna bankakreppunnar þar í landi en greint er frá málinu á fréttavef breska blaðsins The Daily Telegraph.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að breska fjármálaeftirlitið (FSA) hefði ekki brugðist við augljósum varnarorðum um að Kaupþing hefði ekki burði til að starfa í bresku viðskiptalífi. Reyndar fær breska ríkisstjórnin, FSA og ekki síst bresk sveitafélögin öll skammir í hattinn fyrir afskipti sín af íslensku bönkunum.

Þá hvetja skýrsluhöfundar til þess að breska fjármálaráðuneytið bæti góðgerðasamtökum þau 120 milljón Sterlingspunda sem þau töpuðu af innlánum sínum hjá íslensku bönkunum en að sama skapi er tekið fram að sveitafélögin, sem töpuðu um 900 milljónum punda, eigi ekki skilið að fá sitt tap bætt. Rökin fyrir því er að fjölmargir ráðgjafar og álitsgjafar hafi ítrekað varað við starfssemi íslensku bankanna á Bretlandi og það hefði átt að hringja viðvörunarbjöllum hjá stjórnendum sveitafélaga um að fjárfesta ekki og/eða ekki leggja inn fjármagn hjá bönkunum.

FSA taldi sig ekki hafa lögsugu yfir íslensku bönkunum

Þá tekur sérstaklega fyrir vanmátt eða öllu heldur getuleysi FSA, eins og það er orðað í skýrslu nefndarinnar, sem hafi fengið viðvarandir um starfssemi Kaupþings árið 2005 – áður en Kaupþing tók yfir Singer & Friedlander bankann – og ekkert aðhafst vegna þeirra.

Í skýrslunni kemur fram að þáverandi forstjóri Singer & Friedlander, Tony Shearer hafi varað FSA við „undarlegri“ hegðun Kaupþingsmanna í viðskiptalífinu en FSA hafi litið svo á að það væri óþarfi að aðhafast þar sem íslenska fjármálaeftirlitið hefði ekki gert athugasemdir við starfssemi Kaupþings.

„Við hörmum mjög getuleysi FSA til að taka fyrir þau mál sem snúa að viðvörunum sem stofnunin fékk varðandi bankann en hún leit svo á að það væri ekki hennar hlutverk að taka fyrir erlenda banka,“ segir í skýrslu nefndarinnar sem birt var í dag.

Þó segir nefndin að þrátt fyrir að FSA hefði e.t.v. ekki getað gripið til sérstakra aðgerða gegn íslensku bönkunum hefði stofnunin getað sleppt því að veita þeim starfsleyfi vegna gruns um að ekki væri allt með felldu.

Gagnrýna beitingu hryðjuverkalaga en segja óvíst að Kaupþing hefði staðið

Þingnefndin, undir formennsku John McFall, gagnrýnir einnig breska fjármálaráðuneytið fyrir að beita ákvæðum hryðjuverkalaga gegn Landsbankanum og segir beitingu laganna óviðeigandi og hafi haft neikvæð áhrif á diplómatísk samskipti milli Bretlands og Íslands.

Nefndin tekur þó ekki undir gagnrýni íslenskra stjórnvalda, sem segja að beiting hryðjuverkalaganna hafi valdið hruni Kaupþings, og segir enga ástæðu til að halda að Kaupþing hefði staðið af sér ástandið.

Telegraph greinir frá því að skýrslan mun valda innistæðueigendum hjá Landsbankanum á Guernsey og Kaupþingi á Mön vonbrigðum en á báðum eyjunum áttu fjölmargir innistæður hjá bönkunum. Í skýrslunni kemur fram að innistæður á Bretlandi hafi verið tryggðar bæði af breskum og íslenskum yfirvöldum en sú trygging nái ekki til breskra krúnríkja.

Þess má geta að bresk yfirvöld hafa enn um 555 milljónir punda „í haldi“ ef svo má segja í Lundúnum en fjárhæðirnar voru þó hluti af innistæðum viðskiptavina Kaupþings á Mön. Þar sem fjármagnið var geymt í Lundúnum er það að öllum líkindum glaða fé fyrir viðskiptavini Kaupþings á Mön.

Í lok skýrslunnar lýsir nefndi loks þeirri skoðun sinni að Bretar eigi ekki að vera ábyrgir fyrir innistæðum breskra þegna í erlendum bönkum.