Sölutölur húsnæðis í Bretlandi hafa „hrunið“ samkvæmt frétt Telegraph, og hafa ekki verið lægri í 30 ár, eða frá því byrjað var að halda utan um tölfræði um slíkt 1978.

Meðalfjöldi húsa sem seldust undanfarna þrjá mánuði var um þriðjungi lægri en fyrir ári síðan. Fasteignasalar sem könnunin sem byggt er á tekur til seldu að meðaltali 17,4 fasteignir á síðustu 3 mánuðum. Þetta kemur fram í skýrslu frá Royal Institution of Chartered Surveyors.

„Flóðbylgja uppsagna í fasteignabransanum er að byrja að myndast. Hún gæti látið stöðu mála nú verða „gömlu góðu dagana,““ hefur Telegraph eftir einum viðmælenda sinna, fasteignasalanum Neil Hunt. Telegraph sögðu í síðasta mánuði að rúmlega 1.000 fasteignasölur hefðu lokað á þessu ári.

Rannsóknarsetur efnahagsmála (Centre for Economics and Business Research) spáir því að 15.000 fasteignasalar missi vinnuna á árinu.