Ríkisstjórnin hefur ráðið breska lögmannsstofu sem skoðar nú réttarstöðu Íslendinga gagnvart breskum stjórnvöldum.

Þetta kom fram í ræðu Geirs H. Haarde forsætisráðherra á Alþingi í gær.

Geir sagði að breski forsætisráðherrann, Gordon Brown, hefði haldið fram órökstuddum rangfærslum í fjölmiðlum um gjaldþrot og vanskil íslensku þjóðarinnar.

Þá hefði fjármálaráðherra Breta, Alistair Darling, haldið því fram að íslenska ríkið hygðist ekki standa við skuldbindingar sínar.

„Í kjölfarið var breska fjármálaeftirlitinu beitt gegn Kaupþingi í Bretlandi og starfsemi þess þar í landi lokað sem varð til þess að þetta stærsta fyrirtæki landsins fór á hliðina. Þessar aðgerðir og ummæli ollu fjölda annarra íslenskra fyrirtækja gríðarlegu tjóni,“ ítrekaði Geir.

„Hinar fordæmalausu aðgerðir breskra yfirvalda í garð Kaupþings í Bretlandi gera það að verkum að við hljótum að skoða réttarstöðu okkar gagnvart breskum stjórnvöldum.“