Bresk skattayfirvöld töpuðu í gær máli sem þau höfðu í langan tíma sótt gegn smásölufyrirtækinu Marks & Spencer og mun sú niðurstaða líklega hafa miklar afleiðingar fyrir hundruð annarra fyrirtækja í Bretlandi.

Það er talið að um þrjú hundruð önnur fyrirtæki hafi verið að bíða eftir úrskurði dómstólsins í þessu máli og upphæðirnar sem þar voru undir hafi jafnvel skipt hundruðum milljóna punda. Málið á rætur sínar að rekja til þess að Marks & Spencer taldi að núverandi bresk lög sem bönnuðu skattafrádrátt á milli ríkja brytu gegn grundvallarreglum sáttmála Evrópusambandsins (ESB). Evrópudómstóllinn úrskurðaði fyrirtækinu í hag árið 2005, en setti þónokkra fyrirvara á. Meðal annars þann að aðildarríkjum sambandsins væri lögum samkvæmt heimilt að setja kvaðir á fyrirtæki sem myndu tryggja að tap þeirra gæti ekki verið notað tvisvar sinnum í skattalegu hagræði, heldur aðeins einu sinni í erlendri lögsögu og einu sinni í Bretlandi.

Deilan sem stóð á milli skattayfirvalda í Bretlandi og Marks & Spencer snérist um túlkun á þessum dómi sem féll í Evrópudómstólnum fyrir um tveimur árum síðan. Samkvæmt úrskurði áfrýjunardómstólsins í gær geta félög notað ónýtt rekstrartap dótturfyritækja sinna sem skráð eru erlendis á móti hagnaði þeirra í Bretlandi. En að sama skapi verða félögin þó að geta sýnt fram á, að það sé ekki raunverulegur möguleiki fyrir þau nota tapið til skattafrádráttar þar sem það verður til erlendir og þvi sé eðlilegt að þau geti fært tapið á móti hagnaði þeirra í Bretlandi.